Íslandsmót barnaskólasveita í skák

Íslandsmót barnaskólasveita í skák fór fram sunnudaginn 21. mars síðastliðinn. Mótsstaður var Rimaskóli í Grafarvogi. Keppnin fór þannig fram að sveitir, skipaðar fjórum liðsmönnum hvers skóla, tefldu gegn sveitum annarra skóla. Vogaskóli sendi skáksveit til keppninnar og var hún skipuð nemendum úr 5.-7. bekk sem hafa sótt vikulega skáktíma í skólanum í vetur. Fulltrúar skólans voru Kjartan Halldór 5. bekk, Alexander Arnar og Óðinn 6. bekk og Felix Eyþór og Ívar Ingi 7. bekk. Vogaskóli vakti mikla athygli á mótinu fyrir frábært gengi en sveitin endaði í 6. sæti af 23 sveitum og var í toppbaráttunni allt mótið. Það var þó ekki bara góð taflmennska skáksveitarinnar sem vakti athygli því skákdómarar mótsins höfðu það sérstaklega á orði að kurteisi og drengileg framkoma liðsmanna Vogaskóla hafi verið til mikillar eftirbreytni. Það er því óhætt að hrósa okkar fulltrúum – sem allir hafa sýnt skákinni áhuga í vetur og tekið miklum framförum. Liðsstjóri sveitarinnar var Björn Ívar Karlsson skákkennari skólans.