Matseðill

Vefpóstur
Skóladagatal
Mentor
Umsókn um leyfi

WOW verkefni Vogaskóla

ÞingvellirÍ síðustu viku heimsóttu góðir gestir Vogaskóla. Þetta voru níu nemendur frá Finnlandi og sex frá Galisíu á Spáni sem voru hér ásamt kennurum sínum að vinna í Erasmus+ verkefni. Verkefnið er allt unnið á ensku og heitir WOW, Words over Walls, the value of experience sem mætti kannski þýða „Sögur sameina fólk. Um gildi reynslunnar“. Í Vogaskóla taka 12 nemendur þátt í verkefninu í vetur og gistu gestir hjá þeim þessa viku. 

WOW-verkefnið miðar að því að auka umburðarlyndi og skilning milli manna og aðferðin byggist á því að nemendurnir taka viðtöl við eldri borgara sem miðla þeim af reynslu sinni. Viðtölin verða síðan kveikja eða uppspretta að persónum í sögu sem nemendur skrifa í samvinnu við nemendur frá hinum löndunum. Þetta kallast collaborative writing á ensku, samvinnuskrif gæti náð þessu á íslensku. Megináherslan á flutninga enda margir í stöðu flóttamanna í Evrópu þessi misserin og að reyn að laga sig að lífinu í nýju landi.

Dagskrá heimsóknarinnar var stíf. Á morgnanna og fram eftir degi var unnið að verkefninu en síðdegis var farið á söfn eða í ferðir til að gestirnir fengju að kynnast landi okkar og menningu sem best. Eftir að skipulagðri dagskrá lauk tóku íslensku nemendurnir og fjölskyldur þeirra við gestunum og báru ábyrgð á þeim. Í vetur heimsækja okkar nemendur svo bæði Finnland og Galisíu, sjö 10. bekkingar fara til Finnlands í febrúar og fimm 9. bekkingar til Galisíu í apríl.

Næsta vetur endurtökum við svo leikinn og þá auglýsum við eftir nýjum nemendum í verkefnið í 9. og 10. bekk. Hér má sjá fleiri myndir.