Námsráðgjafi
Náms- og starfsráðgjafi Vogaskóla er Lilja Þorkelsdóttir
Hlutverk náms- og starfsráðgjafa felst í því að vinna að velferð nemenda í samvinnu við foreldra, kennara, skólastjórnendur og aðra starfsmenn skólans. Náms- og starfsráðgjafi styður og liðsinnir nemendum í málum sem varða m. a. nám þeirra og líðan í skólanum.
Náms- og starfsráðgjafi er málsvari nemenda og leitar allra leiða til þess að aðstoða nemendur við að finna lausnir á sínum málum. Jafnframt er náms- og starfsráðgjafi trúnaðarmaður nemenda og er bundinn trúnaði varðandi þær upplýsingar sem hann fær um nemendur og hagi þeirra.
Það stendur öllum nemendum og forráðamönnum til að boða að óska eftir viðtali hjá náms- og starfsráðgjafa. Nemendur geta þá komið að eigin frumkvæði, eða með milligöngu forráðamanna, kennara og annara starfsmanna skólans. Einnig er hægt að bóka viðtal í gegnum síma eða tölvupóst.
Helstu verkefni náms- og starfsráðgjafa í grunnskóla eru meðal annars:
-Að stuðla að því að öllum nemendum líði sem best í skólanum og þeir nái sem bestum námsárangri.
-Að aðstoða nemendur og ráðleggja varðandi námstækni, námsaðferðir, lestraraðferðir, prófundirbúning, skipulagningu tíma og áætlanagerð.
-Að veita nemendum stuðning og ráðgjöf vegna tímabundinna erfiðleika og áfalla.
-Að veita nemendum persónulega ráðgjöf í formi einstaklings- og/eða hópráðgjafar
-Að aðstoða nemendur við að gera sér grein fyrir áhugasviðum sínum og meta hæfileika sína raunsætt miðað við nám og störf. Nemendum 10. bekkja býðst að taka áhugakönnun.
-Að miðla upplýsingum til nemenda og forráðamanna um möguleika og framboð á námi og störfum að grunnskóla loknum.
-Að vinna að eineltismálum samkvæmt eineltisáætlun skólans og í samstarfi við umsjónarkennara, deildarstjóra og annað starfsfólk eftir því sem við á.
-Að sitja í nemendaverndarráði og vinna í nánu samstarfi við umsjónarkennara og starfsfólk skólans og sérfræðinga sem koma að málefnum nemenda.
Samvinna á milli nemenda og náms- og starfsráðgjafa er grundvöllur þess að ráðgjöfin nýtist nemendum.