Læsisstefna Vogaskóla
Við gerð læsisstefnu Vogaskóla var tekið mið af gildandi aðalnámskrá grunnskóla (2013) og þjóðarsáttmála um læsi. Þjóðarsáttmáli um læsi var undirritaður 2015 og er samningur milli ríkis og sveitarfélaga um að læsi sé nauðsynlegur til virkrar þátttöku í samfélaginu og að stefnt sé að því að öll börn geti lesið sér til gagns í lok grunnskóla. Fulltrúar heimilis og skóla undirrituðu einnig samninginn og lögð áhersla á að virkja aðkomu foreldra og aðstandenda í að vera virkir þátttakendur í námi barna sinna og fylgjast vel með framvindu þeirra í námi.
Skólinn leggur áherslu á að efla læsi í víðum skilningi og samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla felur læsi í sér talað mál, hlustun og áhorf, lestur og skilning og ritun. Hér á eftir eru sett fram hæfniviðmið í þessum þáttum fyrir hvern árgang, hvaða leiðir eru farnar og hvenær og hvernig árangur er metinn.
Áhersla er lögð á að þróa lestrarfærni alla skólagönguna og efla læsi í öllum greinum. Allir kennarar taka þannig þátt í að gera nemendur læsa í sinni námsgrein og stefna að því að viðhalda áhuga nemandans á að auka hæfni sína.
Stefnt er að því að nemendur fái góða upplifun af lestri frá fyrstu byrjun og lögð áhersla á snemmtæka íhlutun við upphaf skólagöngu. Þetta er gert með ýmsum skimunum að hausti í 1. bekk og stuðst er við upplýsingar og gögn frá leikskólum. Leitast verður við að finna vísbendingar um lestrarvanda sem allra fyrst til þess að veita sérstakan stuðning og stuðla að farsælu námi. Einnig þarf að veita nemendum af erlendum uppruna sérstakan stuðning þannig að þeir nái viðmiðunum í læsi. Stefnt er að því að auðvelda nemendum með lestrarvanda að tileinka sér nám m.a. með tækniaðstoð.
Skólinn stefnir að því að nota fjölbreyttar kennsluaðferðir til þess að efla læsi. Í byrjendakennslunni eru nýttar bæði aðferðir hljóðlestrar og byrjendalæsis sem er samvirk kennsluaðferð ætluð í 1.-2. bekk. Lögð er áhersla á að vinna með gagnvirkan lestur og unnið með PALS-aðferð (Pör að lesa saman) í 4. bekk og á miðstigi. Kennarar skólans vinna m.a. með hugarkort og aðferðina Orð af orði sem nýtist í öllum námsgreinum og er m.a. aðferð til þess að efla málnotkun og kenna nemendum orð og hugtök. Leiðir kennara verða æ fjölbreyttari með hjálp upplýsingatækninnar til að stuðla að því að nemendur nái hæfnimarkmiðum sínum í læsi.
Mikilvægt er að stefnt sé að virkri samvinnu heimilis og skóla til þess að efla læsi nemenda.
Til þess að meta stöðu nemenda er stuðst við viðmið Menntamálastofnunar (mms) úr prófinu Lesferill og komin eru viðmið í raddlestri þ.e.a.s. fjöldi rétt lesinna orða sem nemandinn les á mínútu. Væntanleg eru viðmið í lesskilningi, ýmsum hliðarprófum og ritun frá Menntamálastofnun.
Í læsisstefnu skólans nú er stuðst við viðmið LÆSI 2 í 2. bekk (lesskilningur) og viðmið úr lesskilningsprófunum Orðarún í 3.-8. bekk.
Stefnt er að því að endurskoða læsisstefnu skólans árlega.